AskPhoto.is

Áskell Þórisson

LAUFEY

Kjólar sem passa við allar árstíðir – ár eftir ár. Kjólarnir eru saumaðir á Akranesi. Efnin eru búin til úr endurunnum plastflöskum og prentlitirnir eru vatnsuppleysanlegir og
eiturefnalausir. Saga myndarinnar fylgir hverjum kjól.

Smelltu á línuna hér fyrir neðan og þá opnast bæklingur um kjólana:

Click on the line below and a
brochure about the dresses will open:

 LAUFEY_haust_2022

Lækurinn, hafið og sandurinn
Þegar sólin var eitt sinn í hádegisstað fór ég um fjöru eina í Hvalfirði. Smálækur á leið sinni til sjávar kallaði til mín og vildi fá mynd. Smávaxnar straumöldur ýttu sandkornunum áfram svo þau mættu sameinast félögum sínum í fjörunni.

Þessi mynd er 50 x 50 cm.

 

Lyng og ber
Aðalbláber – einkum þau sem vaxa á norðausturhluta landsins – eru hið mesta hnossgæti með rjóma og sykri. Þessi ber og lyng var að finna í Svarfaðardal, en þarna höfðu jurtirnar teygað í sig norðlenskt dalaloft með dæmafáum árangri.

Þessi mynd er 50 x 50 cm.

 

Litadans
Litir í íslenskri náttúru eru hreinir og tærir. Þegar þeir speglast í vötnum á kyrrum dögum getur útkoman orðið eitthvað á borð við það sem ég upplifði í Vífilsstaðavatni. Stundum teygðist á bláa litnum og stundum dansaði guli liturinn fram og til baka af tómri ánægju.

Þessi mynd er 90 x 75 cm.

 

Fjársjóður
Íslendingar búa vel að eiga mikið af hreinu og ósnortnu landi. Þetta er slíkur fjársjóður að allir aðrir blikna ef nefndir í sömu andrá. Þessi smávaxni sjóður er einn af mörgum áþekkum og var að finna á vesturhluta landins.

Þessi mynd er 80 x 80 cm

 

Alda mætir sandtungum
Hafið kemur manni sífellt á óvart. Skammt frá heimili mínu í Hvalfirði er hafið sífelt að móta og endurgera ströndina. Það sem var í gær er horfið í dag. Svona sá ég ljósar sandtungur mæta öldunum.

Þessi mynd er 60 x 60 cm

 

Horft til jarðar
Þegar ég geng á milli þúfna í náttúrunni á Vesturlandi, horfi ég gjarnan á gróðurinn og velti því fyrir mér hvernig væri best að koma honum á striga – með dyggri aðstoð myndavélar. Þúfnagróðurinn þarf að uppfylla ákveðin skilyrði – og þessi gerði það.

Þessi mynd er 60 x 60 cm

 

Á leið til hafs
Haustin eru áhugaverður tími fyrir ljósmyndara eins og mig. Litirnir eru sterkir og það er svo margt að gerast í náttúrunni að það hálfa væri nóg. Lífið sem gladdi okkur um sumarið kveður með loforði um að koma aftur ná nýjan leik. Myndin er úr Álfholtsskógi.

Þessi mynd er 80 x 80 cm

 

Skorradalur
Einn þekktasti og um leið fallegasti dalur landsins er án efa Skorradalur. Flestir setja hann í samband við tré, vatn og sumarbústaði – en ég er meira fyrir lággróðurinn og grjótið!

Þessi mynd er 60 x 40 cm

 

Línur í læk

Ég held að ég gefist aldrei upp á fjörunni. Hún er eilíf uppspretta viðfangsefna vegna þess að sami staðurinn breytist stöðugt vegna m.a. mismunandi birtu. Trúi því hver sem vill en hér er lækur að renna eftir ljósri sandfjöru í Hvalfirði.

Þessi mynd er 70 x 50 cm.

 

Berjadalslitir

Ég er áhugamaður um litla fossa. Vatnið og krafturinn í því hefur alltaf heillað mig. Og hér erum við vestan við Akrafjall og vatnið er ættað úr Berjadal.  

Þessi mynd er 75 x 50 cm.

 

Horft til jarðar
Ég hef alltaf sagt að fegurðin búi í hinu smáa. Sjáðu reglufestuna í þessum formum! Við eigum að ganga vel um náttúruna og allt sem í henni býr. Sjálfbærni er lykilatriði. Myndina tók ég við utanverðan Hvalfjörð.

Þessi mynd er 70 x 50 cm.

 

Blómskrúð
Grasagarðurinn í Laugardal er sneisafullur af síbreytilegum listaverkum. Náttúran er afkastamikil og lætur sig engu skipta álit fólks á einstaka tegundum en vandar sig í öllum tilvikum. Það er sálarbætandi að horfa á blóm sem bærast í sunnangolu og sólskini. 

Þessi mynd er 70 x 50 cm.

 

Horft í hraun

Ímyndunaraflið er eitt það skemmtilegasta við mannshugann. Þegar sumir sjá  dökkbrúnan hraunmola sé ég liti sem flæða út um allt. Já, þetta er hraunmoli í Rauðhólunum fyrir ofan Reykjavík. Eru þessir litir í honum? Já, því ekki það?

Þessi mynd er 70 x 50 cm.

 

Skeljafjörulist

Ljósu fjörurnar við utanverðan Hvalfjörð eiga það til að fyllast af skeljabrotum. Ég sæki í þessar skeljabrot þar sem þau mynda svo falleg form. Á stundum sit ég á ströndinni og róta eins og barn í skeljabrotunum sem eitt sinn hýstu líf.

Þessi mynd er 60 x 40 cm.

 

 

Miðdalslist

Árum saman hef ég talað við jurtir. Ég hef hrósað trjám fyrir mikinn vöxt og blómum fyrir fallega liti. Og þetta gerði ég svikalaust þar sem ég arkaði um Miðdal í Kjós. Hvar vegna mátti sjá þykkar breiður af fallegu berjalyngi glöddu mig – og myndavélina.

Þessi mynd er 65 x 45 cm.

 

Runni

Fyrir margt löngu var ég á ferð um Suðurland og sá þá þennan runna sem stóð upp úr snjó og klaka. Ég hef alltaf dáðst að þeim eiginleika plantna að geta beðið af sér veturinn. Það eru ekki til neinar tilviljanir í heimi náttúrunnar. 

Þessi mynd er 90 x 60 cm.

 

Blómalist í Grasagarðinum
Grasagarðurinn í Laugardal er eitt listaverk frá upphafi til enda. Það er líka alveg ljóst að fólkið sem þar starfar kann sitt fag og hefur metnað – sem mætti sjást víðar. Mér finnst vænt um Grasagarðinum og ég held því fram að blómunum þyki vænt um mig. Blóm hafa tilfinningar eins og allt sem lífsanda dregur.
Stærð: 95×95

 

Þegar mýrin býr til listaverk!
Íslenskt votlendi er magnað og merkilegt. Það er ekki langt síðan fólk áttaði sig á hlutverki mýranna og nauðsyn þess að endurheimta votlendi. Ég tók þessa mynd af mýrarvatni sem kom út úr sprungu í Hvalfirði.
Stærð: 50 x 70

 

Leikur að litum
Gróður í móa er endalaus uppspretta hugmynda að myndum. Myndvinnsla nútímans gerir ljósmyndaranum kleift að elta uppi smáatriði í litum, skerpa og laga. Þarna erum við stödd í Rauðhólum í marsmánuði.
Stærð: 70 x 50

 

 

Kjalarnes
Það er full ástæða til horfa á árnar á Kjalarnesi. Þær láta ekki mikið yfir sér en botninn, maður lifandi, hann er sannarlega litríkur þegar sólin skín í heiði. Var botninn akkúrat svona? Nei, vissulega ekki en svona varð hann – og svona vildi ég sjá hann á vegg! 

Stærð: 90 x 45

 

Botn
Blikdalsá á Kjalarnesi hefur allt það sem prýða má fallegt vatnsfall. Vatnið er kristaltært og hæfilega djúpt fyrir þrífót og mann í vaðskóm. Auðvitað á ég minn uppáhaldsstað og fer þangað gjarnan til að finna kraftinn í umhverfinu.

 

Skófir I
Skófir eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Þessar var að finna á grjóti hjá Akrafjalli en annars er enginn sérstakur skortur á skófum á Íslandi. Formin eru ótrúlega flott og með ögn af þolinmæði má ná fram ýmsum litum.
Stærð: 90 x 80

 

Í fjöru
Ég uppgötvaði eitt sinn athyglisverða fjöru á Snæfellsnesi. Í fjörunni voru – og eru enn – boldangs steinar; þaktir þangi og öðrum gróðri sem tengdur er hafinu.
Stærð: 90 x 60

 

Sólargrjót
Í mars á liðnu ári fór ég um Álfholtsskóg. Naut fámennisins í skóginum. Lækirnir voru að búa sig undir átök vorsins og þessi rann ljúflega yfir stein í farveginum. Sólin var svo elskuleg að senda nokkra geisla í skóginn þegar ég tók myndina.
Stærð: 70 x 100

 

Form og litir
Smálækur hnígur fram af þverhníptan vegg – sem var svo lítill að ég þurfti að krjúpa fyrir framan hann þegar ég tók þessa mynd. Það er líka öllum hollt að krjúpa öðru hvoru fyrir framan listaverk náttúrunnar. Myndin var tekin í fjöru í Hvalfirði.
Stærð: 100 x 70

 

Skófir II
Þessi mynd tók ég af skófum í utanverðum Hvalfirði. Ég var lengi að brasa við að ná myndinni og enn lengur að vinna hana í myndvinnsluforriti. Mig langaði til að skerpa á þeim andstæðum sem ég sá á skófunum og hætti ekki fyrr en ég sá þetta á skjánum. Enn og aftur. Hafðu með þér stækkunargler í næstu gönguferð.
Stærð: 80 x 100

 

 

Rauðhólar
Þessa mynd tók ég í Rauðhólunum í
Reykjavík. Rauðhólarnir eru magnaðir. Ljósmyndarar eins og ég grípa bara andann á lofti þegar þangað er komið. Ekki er það síður skemmtilegt að vinna í þessum myndum og ná fram nýjum litum og áherslum.
Stærð: 75 x 95

 

Hvalfirskir álfar
Eins og öllum er kunnugt eru klettar bústaðir álfa og huldufólks. Þessi klettaveggur – sem er náttúrlega veggur á tilkomumiklu einbýli – er í Hvalfirði. Ef miðað er við stærð klettaveggja í Hvalfirði má draga þá ályktun að hvalfirskir álfar séu vel stæðir.

Stærð: 90 x 90

 

Skófir og fléttur við Akrafjall
Ég hef margsagt náttúruunnendum að fara alltaf með stækkunargler með sér í gönguferðir. Ástæðan er skófir á grjóti. Skófir geta lifað við ótrúlega snauðar aðstæður. Annars eru víst fléttur og skófir svipuð fyrirbæri – sambýli þörunga og sveppa. Þeir sem heillast af skófum og fléttum verða aldrei samir á ný.
Stærð: 80×70

 

Sandlist
Við utanverðan Hvalfjörð er nokkuð algengt að finna ljósan sand í fjörum. En hvernig lítur ljós, hvalfirsk sandfjara út þegar smálækur rennur yfir hana? Svona? Ekki alveg en með aðstoð myndvinnsluforrita var úkoman þessi. Öldurnar í læknum gefa myndinni sterkan svip.
Stærð: 60 x 40

 

Mýrin, vatnið og vofurnar
Ég á mér uppáhaldsfjöru í Hvalfirði. Fer gjarnan þangað á sólríkum dögum með hundinn, Ösku, sem nýtur þess að grafa holur í sandinn. Norðan við fjöruna er klettabelti og í gegnum sprungur í klettunum rennur kyngimagnað mýrarvatn sem lítur aldrei eins út. Sumir hafa séð andlit og jafnvel vofur á þessari mynd.
Stærð: 90 x 60

 

Lauf í Laugardal
Hefur þú gengið um Grasagarðinn í Laugardal og virt fyrir þér gróðurinn? Þetta er ein fallegasta gróðurvin landsins og þar tók ég þessa mynd.
Stærð: 80 x 120

 

Foss sem vart stendur undir nafni
Á vormánuðum 2020 var ég á ferð um Álfholtsskóg við Akrafjall. Veðrið var dásamlegt og litbrigði náttúrunnar sýndu að vorið var komið í dyragættina. Ég er hrifinn af fossum sem varla standa undir nafni. Þetta er – já, þetta er einmitt einn þeirra!
Stærð: 80 x 120

 

Svarfdælskur litalækur
Var lækurinn svona á litinn? O, nei – síður en svo. Þetta var og er klassískur íslenskur lækur í Skíðadal – eða öllu heldur örlítið brot. Mig langaði til að kalla fram gleðina í læknum og þá er best að nota liti.
Stærð: 80 x 70

 

Leirá
Þú hefur án efa sullað í ám og lækjum – með eða án stígvéla og dáðst að vatnsbotninum. Þegar sólin skín og vatnið er kristaltært – og við gefum okkur tíma til að horfa, birtist margt sem áður var hulið. Ég stóð úti í miðri Leirá skammt frá Skarðsheiði og tók þessa mynd. Þegar heim kom vann ég myndina í myndvinnsluforriti þar til ég sá þessi form og liti.

Stærð: 140 x 80

 

 

Lækjarlist í hvalfirskri fjöru
Það er eitthvað við litla læki sem heillar mig. Kannski er það vatnið sem er undirstaða lífsins á jörðinni. Svo mikið er víst að ef myndavél er beint að vatni sem líður hægt yfir sand; ímyndaraflið og tækni nútímans virkjað, tja, þá getur þetta verið niðurstaðan. Myndin á uppruna sinn í fjöru í Hvalfirði.

Stærð: 100 x 140

 

Álfalækur í Álfholtsskógi
Getur verið að lækir álfa séu frábrugðnir því sem við þekkjum úr mannheimum? Það má færa rök fyrir því! Í það minnsta var þessi mynd tekin af laufum í litlum læk í Álfholtsskógi. 

Stærð: 80 x 150

 

Frosin II. Það sem heillaði mig mest í þessari mynd var hvernig litirnir í klakanum vinna náið saman. Ekki síður hvernig frostið hafði skellt í lás á loftbólurnar sem líklega vissu ekki sitt rjúkandi ráð þegar það gerðist. Gróðurinn lokaðist líka inni í klakanum og saman myndaði þetta allt mikilfenglegt listaverk. Myndin er frá klakabreiðum við Skarðsheiðina.

Stærð: 85 x 60

 

Fosslist í fjöru. Myndin er mun stærri en fossinn var í raun og veru. Líklega náði hann varla 30 sentimetrum og hann er löngu hættur störfum, horfinn, farinn. Á sínum tíma lék hann á sína lágværu hörpu ofarlega í fjöru í Hvalfirði.

Stærð: 60 x 45 cm.

 

Fjörulíf. Ég er einn þeirra sem get setið tímunum saman á steini í fjöru og hlustað á hafið. Þá dáist ég stöðugt að íbúum hafsins og fjörunnar – tek gjarnan af þeim myndir. Hér má sjá nokkra þeirra.

Stærð: 70 x 60 cm. 

 

Þessi mynd varð til eftir ferð um Fljótahlíð. Það hafði rignt fyrr um daginn og nú flæddi lækurinn yfir grasi gróna þúfu sem beið róleg eftir uppstyttu. En stráin léku svo aðalhlutverkið og vita það ekki enn.

Stærð: 60 x 35

Vetrardvali. Þó svo gróðurinn sé í dvala og laublöðin grámóskuleg leynast í þeim litir sem bíða þess að vera dregnir fram og skoðaðir nánar.

Stærð: 45×45 cm. 

 

Litagleði. Samspil lita í náttúrunni er ótrúlega mikið. Það er fátt eins gefandi og að arka um móann og mynda listaverkin sem liggja nánast við hvert fótmál.

Stærð: 30×40.

 

 

Lækur við Móskarðshnjúka

Árbotn. Öll höfum við vaðið í ám og lækjum; fundið hvernig kuldinn kemur hægt og bítandi. Þegar vatnið er silfurtært og sólin skín opnast ný veröld á botninum.

Stærð: 40×40 cm.

 

Í vetrarbyrjun. Það var í byrjun nóvember að ég sá þessi lauf og heillaðist af þeim. Enn eina ferðina biðu þau þolinmóð eftir geislum sólar en þau höfðu ekki tapað fegurð sinni, þrátt fyrir myrkur og kulda.

Stærð: 55×55.

Af hausti. Eitt af öðru láta laufblöðin í minni pokann fyrir vetrinum. Þessi hringrás lífsins er ótrúleg. Myndin er ekki lengur í minni eigu. 

Stærð: 45 x 45 cm.

Botnsins litadýrð. Samspil ljóss, vatns og árbotns á Vesturlandi. Mig skortir orð til að lýsa þessari fegurð – og stundum er líka ágætt að vera orðlaus! Ekki lengur í minni eigu.

Stærð: 35 x 45 cm.

Graslist. Mér datt ekki annað heiti í hug. Þar sem ég skondraði um Álfholtsskóg undir Akrafjalli sá ég hvernig gras sumarsins var að búa sig undir að ganga til jarðar og sameinast henni.

Stærð: 40×35.

Alheimurinn. Um aldir hefur maðurinn velt fyrir sér óravíddum himinsins. Ekki datt mér í hug, fyrr en ég sá þetta klakaskæni, að í því leyndist mynd af stjörnuþokum í milljóna ljósára fjarlægð. Þær eru þarna ef grannt er skoðað!

Stærð: 60×60 cm. 

 

Friðsæld. Stærð vatnsfalla skiptir engu í mínum huga. Þau sem minni eru – jafnvel smæstu lækir – búa yfir fegurð sem er engu lík. Þarna liðaðist vatnið áfram og fór mjúkum  höndum um steinana sem sólin litaði og lýsti upp af örlæti sínu.

Þetta er ein þeirra mynda sem mér þykir vænt um. Reyndar er það svo að myndirnar eru eins og börnin manns! Það er eins og á myndinni séu tvö op eða augu og í gegnum þau má horfa inn í nýjar víddir. Myndin er ekki lengur í minni eigu. 

Stærð: 50 x 75 cm.

Vetrarfoss. Þennan litla foss fann ég í Álfhólsskógi sem er norðan við Akrafjall. Fossinn er svo lítill að hann stendur varla undir nafni en hann gerði þó hvað hann gat til að vera foss á meðal fossa.

Stærð: 40 x 60 cm.

 

 

Klakagróður. Litríkur gróður í tærum klaka skammt frá Skarðsheiði. Frostið hefur læst klónum í gróðurinn sem má sig hvergi hræra. Inn á milli má sjá loftbólur sem bíða þess að hærra hitastig leysi þær úr læðingi.

Stærð: 60 x 80 cm.

 

Sólargeisli í móanum. Þegar kemur fram sér gróðurinn fram á að vorið mun koma eins og áður – og býr sig samviskusamlega undir stutt sumar.

Stærð: 55 x 35 cm.

 

Íslenskur gróður. Plönturnar hamast við að vaxa og berin eru orðin þroskuð. Fátt jafnast á við það að skríða á milli þúfna og tína ber…

Stærð: 80 x 55 cm.

 

Helgafell. Höfuðborgarbúar þurfa ekki að fara langt til að komast í eitt dásamlegasta útivistarsvæði landsins. Fyrir ofan Hafnarfjörð lúrir Helgafellið – eitt af sjö fjöllum með þessu nafni á Íslandi.

Stærð: 70 x 60 cm.

Klakaeldur.  Þegar sólin lætur sjá sig í skammdeginu á hún það til að hleypa slíku lífi í klakaskæni á pollum og lækjarsytrum að það hálfa væri nóg! Segja má að sólargeislanir kveiki eld í klakanum.

Stærð 60 x 60 cm.

 

Kaldá hvítfyssandi. Það er ótrúlega róandi að sitja á árbakka, loka augunum og hlusta á niðinn. Á stundum er eins og umhverfið nái að gefa líkamanum vel þeginn kraft.

Stærð: 45 x 45 cm.

 

Sumarlíf. Grasið í mýrunum undir Akrafjalli, sem ég heimsæki reglulega, er ótrúlega sterkt og seigt þar sem það vex eins hratt og það mögulega getur. Sumarið á hjara veraldar er stutt og gróðurinn verður að nýta tímann eins vel og hægt er.

Stærð: 70×55.

 

Vetur. Myndin er tekin í Álfholtsskógi. Klakaskæni lúrir sitt hvoru megin við fossinn.

Stærð: 60 x 85 cm.

 

Alda leikur við klett í Hvalfirði. Þarna er hún afar blíð og falleg en á stundum lemja öldurnar þennan sama klett af slíkum krafti að það hálfa væri nóg.

Stærð: 50 x 70 cm.

 

Villiblóm. Ég hef alltaf sagt og segi enn að náttúran er eitt stórt listaverk. Hún tekur þúsundir og aftur þúsundir ára í að búa þegna sína sem best fyrir átök og streð. Það eru ekki til neinar tilviljanir þegar náttúran er annars vegar.

Stærð: 70 x 45 cm.

Myndin er farin úr minni eigu.

Lækjarlíf. Náttúran er og verður eitt stórt og ótrúlega flókið listaverk. Ég fann þetta listaverk í jökulköldum smálæk á Vesturlandi.

Stærð: 50×40.

 

Ormurinn langi. Ég hef verið spurður hvað sé á þessari mynd. Því er auðsvarað. Þetta eru loftbólur sem töldu líf sitt í sekúndum og þær voru smáar, afar litlar. Þær spiluðu ef til vill ekki stóra rullu í leikverki lífsins en eru samt sem áður mikilvægt tannhjól í öllu sem hér þrífst og lifir. Úr lækjarsitru í utanverðum Hvalfirði.

Stærð: 55 x 25

 

Foss í Álfholtsskógi
Eitt vorið þegar ég fór um Álfholtsskóg uppgötvaði ég þennan foss í læk sem læddist á milli trjánna. Það fór ekki mikið fyrir fossinum en okkur kom vel saman. Hann söng fyrir mig og ég raulaði fyrir hann – og tók myndir.

Stærð: 70 x 70

 

Um mig

Ég heiti Áskell Þórisson og starfaði sem blaðamaður og ritstjóri um árabil. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ljósmyndun og nota nú Nikon 850 til verksins. Ég hef lengi einbeitt mér að nærmyndum í íslenskri náttúru en það var ekki fyrr en Nikon 850 vélin kom til sögunnar að ég var sáttur við árangurinn!

Myndvinnsla og gagnaflutningar henni tengdir krefjast ljósleiðara og til mín liggur einn slíkur þar sem ég bý í Hvalfirði. Ljósleiðaravæðing dreifbýlisins er fyrsta aðgerð stjórnvalda í áratugi sem skipti sköpum í atvinnumálum utan þéttbýlis. Ljósleiðarinn gerir fólki í strjálbýli kleift að stunda vinnu sem áður var bundin við þéttbýlið.

Netfang: ask@simnet.is

Sími: 896 3313

Um efni og tæki

Farið er eftir ströngustu skilyrðum er snúa að litaleiðréttingum, litaprófílum og hugbúnaði. Allar myndirnar sem eru í boði á AskPhoto.is eru prentaðar á viðurkenndan striga. Prentarinn sem notaður er til verksins er Epson Sure color 9000V sjá nánar hér

Fylgdu mér á FB